Efnahagur

Sjóðurinn vinnur eftir stefnum sem stjórn setur honum

Birta setur sér fjárfestingar- og áhættustefnur til að ná markmiðum sínum

Meginhlutverk Birtu lífeyrissjóðs er að ávaxta iðgjöld sjóðfélaga og greiða þeim lífeyri. Markmið ávöxtunar er virðisaukning að teknu tilliti til áhættu. Stjórn sjóðsins setur honum fjárfestingar- og áhættustefnur um hvernig sjóðurinn skuli ná settu markmiði til lengri tíma.

Fjárfestingarstefnan er ákvörðuð af stjórn og fjárfestingaráði í samræmi við góða viðskiptahætti með hliðsjón af fjárfestingarheimildum í samþykktum sjóðsins, fjárfestingarreglum og kjörum sem best eru boðin á hverjum tíma með tilliti til ávöxtunar og áhættu.

Í áhættustefnu hefur stjórn sett fram áhættuvilja sinn og skilgreint hefur verið áhættuþol sjóðsins eins og mögulegt er á mælanlegan hátt eftir helstu áhættuþáttum. Sjóðurinn leitast þannig við að líta til heildaráhættu og samspils einstakra áhættuþátta og skilgreina nokkra meginþætti með það að markmiði að minnka líkur á skerðingu á réttindum sjóðfélaga til lengri tíma.

Birta lífeyrissjóður og ábyrgar fjárfestingar

Birta er aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar

Birta lífeyrissjóður er aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (Principles for Responsible Investment). Reglurnar voru samdar af lífeyrissjóðum og eignavörslufyrirtækjum víða um heim í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar. Margir af stærstu lífeyrissjóðum Vesturlanda hafa undirgengist þær. Reglurnar eru vegvísir stofnanafjárfesta um allan heim og skuldbinda þátttakendur til að taka tillit til umhverfislegra og félagslegra þátta við fjárfestingar sínar, auk þess sem lögð er áhersla á góða stjórnarhætti hjá mótaðilum sem fjárfest er í.

Í eigendastefnu Birtu birtir stjórn sjóðsins viðmið um kröfur til góðra stjórnarhátta og umhverfis- og félagslegra þátta hjá mótaðilanum við fjárfestingar svo standa megi við skuldbindingar um ábyrgar fjárfestingar í samræmi við sett markmið.

Þessar stefnuyfirlýsingar mynda eina heild sem lýsir því hvernig sjóðurinn hyggst skapa verðmæti að teknu tilliti til áhættu þegar til lengri tíma er litið.