Sjóðfélagalán

Sjóðfélagar sem greitt hafa til samtryggingardeildar hjá Birtu lífeyrissjóði geta fengið hagstæð húsnæðislán, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Birta býður þrjár tegundir lána, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum auk viðbótarláns fyrir kaupendur fyrstu fasteigna.

Lánsupphæð, lánstími og lánskjör

Birta lífeyrissjóður býður sjóðfélögum sínum upp á bæði verðtryggð og óverðtryggð lán á mjög góðum kjörum. Veðhlutfall er allt að 65% af fasteignamati, verðmati eða kaupverði eignar, en frá 16. desember 2019 bættust við viðbótarlán upp að 75% veðsetningu vegna fyrstu kaupa. Fastir verðtryggðir vextir Birtu lífeyrissjóðs voru 3,60% í árslok 2019. Breytilegir verðtryggðir vextir voru 1,64% en breytilegir óverðtryggðir vextir 4,10%. Breytilegir verðtryggðir vextir eru endurskoðaðir á þriggja mánaða fresti og fylgja þróun vaxta á íbúðabréfum (HFF150444).

Breytilegir óverðtryggðir vextir fylgja þróun meginvaxta Seðlabanka Íslands og eru endurskoðaðir mánaðarlega. Sjóðfélagar hafa val um að endurgreiða lán sín með jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum, mánaðarlega.

Lánstími er 5-40 ár, en 5-15 ár fyrir viðbótarlán vegna fyrstu kaupa. Lánsfjárhæð ákvarðast af veðrými, þó að lágmarki 1.000.000 kr. og að hámarki 40.000.000 kr. á einstakling, hjón eða sambúðaraðila.

Lykilþættir í starfsemi lánadeildar
  • Lánadeild Birtu býður þeim sem sjóðfélögum lán sem
    • greitt hafa síðastliðna sex mánuði í samtryggingardeild
    • eiga þriggja ára samfellda iðgjaldasögu til sjóðsins
  • Vextir eru lágir í sögulegu samhengi og umsóknum hefur fjölgað jafnt og þétt síðastliðið ár samhliða lækkun vaxta
  • Vanskil sjóðfélagalána hafa lækkað á milli ára þrátt fyrir aukin útlán

Endurskoðun lánareglna

Lánareglur Birtu tóku einu sinni breytingum á árinu 2019. Með breytingunum var skilyrt að lánsréttur sjóðfélaga skyldi miðast við samfelldar iðgjaldagreiðslur í þrjú ár á einhverjum tíma starfsferils í stað tveggja ára áður eða að umsækjandinn væri þá jafnframt greiðandi sjóðfélagi. Sé umsækjandi jafnframt greiðandi sjóðfélagi er gerð krafa um að að iðgjöld hafi verið greidd til samtryggingardeildar undanfarna sex mánuði í stað þriggja mánaða áður. Ekki nægir lengur að vera einungis virkur greiðandi til séreignardeildar. Ákveðið var að hámarkslán til einstaklings, hjóna eða sambúðaraðila skyldi vera 40 milljónir króna en var áður 50 milljónir króna.

Birta lánar ekki lengur gegn veði í fleiri en einni fasteign og heldur ekki gegn veði í sumarhúsum.

Þá er nú gerð krafa um hærra byggingarstig en áður vegna nýbygginga. Fyrst er lánað þegar eign hefur náð byggingarstigi 6 og matsstigi 8 og löggilt brunabótamat er komið á eignina.

Birta svaraði ákalli sjóðfélaga um hærra veðhlutfall vegna fyrstu kaupa með viðbótarláni gegn 75% veðsetningu að hámarki. Strangari kröfur gilda um viðbótarlán en gerðar eru til sjóðfélagalána.

Afgreidd sjóðfélagalán

Fjárhæðir í milljónum kr.

2019 2018
Fjárhæð 20.237 13.783
Fjöldi lána 986 697
Meðalfjárhæð 20,5 19,8
Nýjungar í afgreiðslu lána

Miklar breytingar hafa átt sér stað hjá Birtu lífeyrissjóði við sjóðfélagalán og afgreiðslu erinda þeirra vegna. Stöðugildum fækkaði við lánadeildina og stafræn tækni var tekin í gagnið við þjónustuferlið.

Sjóðfélagar sækja nú um lán með rafrænum skilríkjum á heimasíðu Birtu, fá rafrænt greiðslumat og afla sjálfir nær alla gagna sem nauðsynleg eru. Þetta tekur aðeins örfáar mínútur.

Með þessu móti fá umsækjendur samstundis metna greiðslugetu sína og velja lán í samræmi við hana. Í framhaldinu er farið yfir greiðslumatið hjá sjóðnum og matið er síðan sent umsækjandanum rafrænt ásamt kynningargögnum um lánið til athugunar og undirritunar með rafrænum skilríkjum.

Þetta fyrirkomulag hefur reynst öllum vel sem lánamálin varða, sjóðfélögum, lífeyrissjóðnum og starfsmönnum hans. Það flýtir afgreiðslu erinda, er til þæginda og dregur úr kostnaði.

Ný sjóðfélagalán

Nýjum lánum fjölgaði áfram. Þau voru 986 á árinu 2019 en 697 á fyrra ári. Þar af voru 496 verðtryggð lán með breytilegum vöxtum, 22 verðtryggð lán með föstum vöxtum og 468 óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum. Heildarfjárhæð nýrra lána til sjóðfélaga á árinu 2019 var 20.237 milljónir króna en til samanburðar var heildarfjárhæðin 13.783 milljónir króna árið áður og 7.702 og 3.566 milljónir króna árin þar áður. Það hefur því orðið mikil aukning í þessari fjárfestingu hjá sjóðnum á undanförnum árum sem skýrist ekki síst af hagstæðum vaxtakjörum sjóðfélagalána. Meðalfjárhæð hvers láns var 20,5 milljónir króna á árinu en 19,8 milljónir króna árið áður. Sambærilegar upphæðir leiðréttar fyrir blönduðum lánum voru 22,9 milljónir króna sem er svipað og árið á undan.

Fjöldi lána árið 2019

Ný sjóðfélagalán 2019

fjárhæðir í milljónum króna

Verðtryggð lán

Fastir vextir

Verðtryggð lán

Breytilegir vextir

Óverðtryggð lán

Fjárhæð 374 20.237 8.922
Fjöldi lána 22 986 468
Meðalfjárhæð 17,0 20,5 19,1

Staða, vanskil og uppgreiðsla sjóðfélagalána

Vanskil sjóðfélagalána í sögulegu lágmarki

Lán til sjóðfélaga námu í árslok 2019 um 48,2 milljörðum króna en 33,1 milljarði króna ári áður. Lánin voru um 11,8% heildareigna sjóðsins í lok árs 2019 en 8,9% árið áður.

Sjóðfélagar greiddu upp 479 lán á árinu 2019, álíka mörg og árið áður. Samtals námu uppgreiðslur 3,1 milljarði króna.

Vanskil sjóðfélagalána voru í sögulegu lágmarki í lok árs 2019. Vanskilin námu þá 19,8 milljónum króna eða sem svarar til 0,04% heildarlána sjóðsins.

Staða sjóðfélagalána í árslok

fjárhæðir í milljónum króna

Verðtryggð lán

Fastir vextir

Verðtryggð lán

Breytilegir vextir

Óverðtryggð lán

Útistandandi lán 7.704 26.836 13.671
Fjöldi lána 541 2.518 800
Meðalfjárhæð 14,2 10,7 17,1

Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar

Þann 1. júlí 2017 tóku gildi lög um stuðning við kaup á fyrstu íbúð. Þar er rétthöfum heimilað að verja uppsöfnuðu iðgjaldi séreignar til kaupa á fyrstu íbúð og jafnframt að ráðstafa séreignariðgjaldi inn á höfuðstól láns sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, upp að ákveðnu hámarki yfir tíu ára samfellt tímabil.

Áfram var og er í gildi heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á lán og til húsnæðissparnaðar samkvæmt eldra úrræði og gildir sú heimild til 30. júní 2021, sbr. lög nr. 60/2019 sem breyttu lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

Lán vegna fyrstu kaupa
  • Aukið veðhlutfall eða 75% í stað 65%
  • Viðbótarlán (65%-75%)
  • Lánstími 5-15 ár
  • Jafnar afborganir
  • Fastir vextir
  • 0,5% vaxtaálag
  • Hentar ungum sjóðfélögum í fasteignahugleiðingum