Birta lífeyrissjóður stuðlar að jafnvægi milli efnahags, umhverfis og samfélags með sjálfbærni að leiðarljósi
Birta lífeyrissjóður horfir til umhverfis- og félagsþátta við mat á fjárfestingum auk þess að líta til þess hvort fyrirtæki, sem sjóðurinn fjárfestir í, hafi sett sér reglur um góða stjórnarhætti. Reglurnar voru samdar af leiðandi lífeyrissjóðum og eignavörslufyrirtækjum víða um heim í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar og hafa margir af stærstu lífeyrissjóðum Vesturlanda ákveðið að hlíta reglunum.
Birta lífeyrissjóður er aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna (UN Global Compact). Með því skuldbindur sjóðurinn sig til þess að hafa stefnu og starfshætti í samræmi við tíu meginreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnumál, umhverfismál og aðgerðir gegn spillingu.
Ársskýrsla Birtu er nú gefin út í fyrsta sinn samkvæmt GRI, alþjóðlegum grunnstöðlum um skýrslugjöf. Með því að birta ársskýrslu samkvæmt þeim viðmiðum er sjóðurinn að gefa dýpri mynd af starfseminni og áhrifum hans á samfélagið. Í GRI efnisyfirliti má sjá helstu markmið og mælikvarða flokkuð með tilvísun í GRI mælikvarða. Markmiðið er að sjóðurinn tryggi að öll starfsemi skapi félagslegan, umhverfislegan og fjárhagslegan ávinning fyrir sjóðfélaga. Sjálfbærnitaflan inniheldur mikilvægustu efnisþætti í starfsemi sjóðsins, sem hafa mest áhrif á sjálfbærni. Niðurstöður byggja á stefnumótun, lífsferilsgreiningum og áhrifum á þrjár stoðir sjálfbærni; efnahag, samfélag og umhverfi.
Birta lífeyrissjóður hefur sett sér markmið tengd stefnumótun sjóðsins við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Aðalmarkmið sjóðsins er markmið nr. 17 sem snýr að því að efla innlent og alþjóðlegt samstarf um sjálfbæra þróun. Birta lífeyrissjóður telur sig geta unnið að þessu markmiði með góðum stjórnarháttum og ábyrgum fjárfestingum.
Önnur markmið, sem sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á, eru heimsmarkmiðin heilsa og vellíðan (númer nr. 3), jafnrétti kynjanna (númer nr. 5), menntun fyrir alla (númer nr. 4), nýsköpun og uppbygging (númer nr. 9) og sjálfbær orka (númer nr. 7).
Birta lífeyrissjóður er aðili að IcelandSIF sem hefur þann tilgang að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Kristján Geir Pétursson lögmaður Birtu situr í stjórn IcelandSIF.
Birta hefur um árabil verið í samstarfi við VIRK starfsendurhæfingarsjóð. Hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga í kjölfar veikinda eða slysa með árangursríkri starfsendurhæfingu sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði.
Birta lífeyrissjóður er aðili að Landsamtökum lífeyrissjóða. Samtökin eru málsvari Birtu gagnvart stjórnvöldum og fleirum í öllu varðandi sameiginlega hagsmuni aðildarsjóða Landsamtaka lífeyrissjóða. Landsamtökin hafa frumkvæði í þjóðmálaumræðu um málefni sjóðanna og lífeyrismál og stuðla að jákvæðri ímynd þeirra. Þá sinna þau útgáfu- og fræðslumálum lífeyrissjóða með vefmiðlun, námskeiðum og fræðslufundum. Einnig annast þau skýrslugerð og aðra þjónustu við lífeyrissjóði og sjóðfélaga. Jakob Tryggvason, stjórnarmaður í Birtu, situr í stjórn Landsamtaka lífeyrissjóða.
Birta lífeyrissjóður leggur ríka áherslu á öryggi persónuupplýsinga
Persónuverndarstefna Birtu lífeyrissjóðs byggist á evrópskri persónuverndarlöggjöf (GDPR) og lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Birta kappkostar að tryggja öryggi persónuupplýsinga sem sjóðurinn vinnur með á hverjum tíma og gætir að því að unnið sé með persónuupplýsingar í samræmi við gildandi lög og reglur. Markmið Birtu er að geyma ekki meiri upplýsingar en þörf er á og ekki lengur en nauðsynlegt er, til að ná því lögmæta markmiði sem að er stefnt.
Við vinnslu og varðveislu persónuupplýsinga er sérstaklega horft til aðgangsstýringar og fyllsta trúnaðar gætt við meðhöndlun þeirra. Þess má geta að starfsmenn Birtu eru bundnir lögbundinni þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan gildir áfram eftir starfslok.
Persónuverndarfulltrúi Birtu tekur afstöðu til einstakra álitamála er varða persónuvernd.
Rökstuddar kvartanir varðandi brot á persónuvernd viðskiptavina og tap á gögnum þeirra eru ávallt tilkynnt Persónuvernd í samræmi við lög um persónuvernd.
Staðfest er að engar kvartanir vegna brota á reglum eða lögum um persónuvernd bárust á árinu 2019 og engir öryggisbrestir eða leki á persónuupplýsingum átti sér stað á árinu.
Sjóðurinn leggur ríka áherslu á neytendavernd í samskiptum sjóðsins við sjóðfélaga og aðra viðskiptamenn sína. Snar þáttur í neytendavernd er virk upplýsingamiðlun og gagnsæi í störfum sjóðsins.
Mikilvægir þættir til að tryggja neytendavernd á sviði fjármálamarkaðar eru heilbrigðir og eðlilegir viðskiptahættir lánastofnana, þar á meðal lífeyrissjóða, og öflugt regluverk sem takmarkar áhættu í starfseminni, svo sem í samskiptum sjóðsins við almenning og opinbert eftirlit sem tryggir að kröfum tilheyrandi regluverks sé framfylgt.
Markmið með lögum um fasteignalán til neytenda er að auka neytendavernd, tryggja samræmt lagaumhverfi á Evrópska efnahagssvæðinu, stuðla að aukinni upplýsingmiðlun um lánskjör og auðvelda neytendum samanburð á tilboðum um lán.
Í lögunum eru ákvæði um ríka upplýsingaskyldu lánveitenda og lántaka. Neytendum ber að veita upplýsingar um fjárhagsstöðu sína og lánveitendum ber skylda til að upplýsa um vexti og allan kostnað vegna lána.
Birta leggur áherslu á að miðla upplýsingum til sjóðfélaga á vef sjóðsins. Þar er að finna allar upplýsingar um lífeyri, séreignarsparnað og lán. Á vef sjóðsins koma fram allar upplýsingar um tegundir lána, vaxtakjör, afborganir og lánstíma. Þar geta sjóðfélagar borið saman lánamöguleika og kynnt sér allan kostnað sem fylgir lántöku.