Gildi og þjónusta

Birta leggur áherslu á að veita sjóðfélögum frábæra þjónustu með fagmennsku, ábyrgð og heiðarleika að leiðarljósi.

Við bjóðum sjóðfélaga velkomna

Við veitum góða þjónustu með jákvæðu viðmóti og virðingu

Birta lífeyrissjóður leggur áherslu á að veita sjóðfélögum framúrskarandi þjónustu. Starfsfólk Birtu býr yfir sérfræðiþekkingu á lífeyrismálum og lánveitingum. Sjóðfélagar fá góða þjónustu á skrifstofu sjóðsins sem mæld er með þjónustukönnun í móttöku sjóðsins. Við gleðjumst yfir niðurstöðum könnunarinnar sem sýna að 97% þeirra sjóðfélaga sem koma á skrifstofu sjóðsins meta þjónustuna sem framúrskarandi.

Að baki þessum árangri liggur markviss vinna og fræðsla til starfsmanna við að veita framúrskarandi þjónustu, sama hvort hún er veitt á staðnum eða með rafrænum lausnum. Birta leggur áherslu á að bjóða upp á notendavænar rafrænar lausnir sem sjóðfélagar geta nýtt sér þegar þeir sækja upplýsingar um stöðu sína hjá sjóðnum, sækja um lífeyri, séreignarsparnað eða lán.

Til að þjónusta sjóðfélaga sem best er stöðugt unnið að endurbótum á vefsíðunni, birta.is. Á árinu 2019 var vefurinn endurhannaður með það að markmiði að hanna hraðann vef sem virkar í ólíkum netvöfrum og aðlaga að spjaldtölvum og snjallsímum. Lögð var áhersla á einfalt og stílhreint viðmót. Vefurinn er vel sóttur og fjölgar heimsóknum stöðugt á milli ára.

Sjóðurinn vinnur úr þeim ábendingum sem berast frá sjóðfélögum og nýtir þær til að bæta þjónustu við sjóðfélaga og gera vefinn enn betri.

Sjóðfélaginn

„Fyrir tveimur árum ákvað ég að gerast sjóðfélagi í Birtu því þar voru í boði langhagstæðustu vextirnir á óverðtryggðu húsnæðisláni. Í kjölfarið fann ég réttu fasteignina. Umsóknarferlið gekk vel fyrir sig og var þétt haldið utan um okkur í ferlinu af framúrskarandi starfsfólki hjá Birtu. Eins hefur Birta lækkað vexti á lánum sínum samhliða stýrivaxtalækkunum, sem bankarnir hafa ekki gert, svo afborgun af láninu hefur lækkað umtalsvert. Ég er því mjög stoltur og þakklátur sjóðfélagi í dag.“
Margrét Dan Þórisdóttir
Tannsmiður

Gildin okkar styðja við stefnu sjóðsins

Gildin leiðbeina okkur um hvernig á að gera hlutina og skilgreina hvað við stöndum fyrir

Gildum Birtu er ætlað að styðja við stefnu stjórnar og leiðbeina starfsfólki um það hvernig við gerum hlutina og skilgreina hvað við stöndum fyrir. Gildin sem sett eru af stjórn að höfðu samráði við starfsfólk eru mikilvægt stjórntæki sem við styðjumst við í daglegum viðfangsefnum og stórum ákvörðunum.

Fagmennska

Við hlítum lögum og reglum sem um starfsemina gilda og tryggjum jafnræði á meðal hagaðila með samræmdum starfsvenjum. Verklagsreglur og vinnulýsingar eru vel ígrundaðar og við fylgjum þeim. Við lýsum því sem við gerum á þeim faglega grunni sem þær byggja á. Við höldum trúnað við sjóðinn og upplýsum ekki um það sem leynt á að fara.

Ábyrgð

Ábyrgð fylgir skylda og skuldbinding um að gera það sem okkur er veitt umboð til að gera. Að fylgja verkefnum eftir af skyldurækni og hollustu við sjóðinn. Við kennum ekki öðrum um og leitumst við að leysa það sem við getum af ábyrgð.

Heiðarleiki

Við stundum viðskipti af heilindum. Við beitum ekki bolabrögðum, óviðeigandi þrýstingi eða þvingun til að ná markmiðum okkar. Við afvegaleiðum ekki umræðuna okkur í hag heldur viðurkennum mistök til að læra af þeim og við tilkynnum um hagsmunaárekstra. Við horfum fyrst og fremst til hagsmuna sjóðsins.

Traust

Traust er óskagildi okkar, það gildi sem heldur starfsemi Birtu gangandi, frumskilyrði í öllu okkar starfi. Við viljum byggja upp traust og viðhalda trausti allra hagaðila.

Tryggingavernd og fjármálaþjónusta með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi

Starfsemi Birtu þjónar fyrst og fremst íslenskum neytendamarkaði

Birta lífeyrissjóður veitir tryggingavernd og fjármálaþjónustu á íslenskum neytendamarkaði. Við gætum hagsmuna sjóðfélaga sem neytenda og verndum sjóðfélaga eins og neytendur skv. lögum um neytendakaup. Við sundurgreinum markaði sem Birta þjónustar með eftirfarandi hætti:

Íslenskur tryggingamarkaður

Samtryggingardeild Birtu veitir lífeyristryggingar (lágmarks tryggingavernd) skv. samþykktum og lögum þar um og telst sá þáttur veigamestur í starfsemi Birtu. Um 100.000 einstaklingar njóta tryggingaverndar samtryggingardeildar Birtu þar sem tryggingaverndin ræðst af uppsöfnuðu iðgjaldi yfir starfsævina. Ef horft er til iðgjalda, eigna og lífeyrisgreiðslna er hlutdeild Birtu á þessum markaði 8,2%. Tryggingaverndin er hluti af kjarasamningsbundinni aðild launamanna að sjóðnum samkvæmt samþykktum og lögum um lífeyrissjóði. Þar að auki geta aðilar, sem hvorki eru bundnir kjarasamningum aðildarfélaga Birtu né njóta ráðningarbundinna starfskjara sem byggð eru á kjarasamningum, greitt til samtryggingardeildar Birtu.

Séreignardeild Birtu veitir viðbótartryggingavernd, oft nefnt séreignarsparnaður, með samningum um tryggingavernd, sem er umfram þá lágmarkstryggingavernd sem samtryggingardeild Birtu veitir. Alls 30.206 rétthafar eiga hlutdeild í séreignardeild Birtu og 1.598 rétthafar í tilgreindri séreignardeild. Ef horft er til iðgjalda, eigna og lífeyrisgreiðslna er hlutdeild Birtu á þessum markaði 2,2%.

Fasteignalánamarkaður

Samtryggingardeild Birtu veitir fasteignalán til sjóðfélaga gegn veði í fasteignum í samræmi við lög nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Um 4.000 sjóðfélagar hafa tekið fasteignlán hjá Birtu og ef tekið er tillit til 48 milljarða eignar Birtu í fasteignalánum til neytenda þá er hlutdeild á 1.800 milljarða húsnæðislánamarkaði vera 2,3%. Markaðshlutdeild viðskiptabanka er um 50%, Íbúðalánasjóðs um 20% og lífeyrissjóða um 26% ásamt öðrum minni aðilum.

Þjónustan

Birta lífeyrissjóður tekur á móti fjölda umsókna í hverjum mánuði ásamt því að veita ráðgjöf til sjóðfélaga

295
Heimsóknir á skrifstofu
250
rafrænar umsóknir
1.870
Símtöl vegna ráðgjafar