Sjóðurinn er meðvitaður um ábyrgð sína um að stuðla að aukinni vitund í umhverfismálum með það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum í starfsemi sinni.
Eitt af lykilatriðum í ábyrgum rekstri er umhverfisstjórnun
Birta hefur það að leiðarljósi að halda neikvæðum umhverfisáhrifum í starfseminni í lágmarki og hefur unnið markvisst að umbótum í umhverfismálum. Vinna í umhverfismálum tekur mið af bættri umhverfisstefnu og aðgerðaráætlun. Eitt af lykilatriðum í ábyrgum rekstri er umhverfisstjórnun. Umhverfisstjórnun þýðir að Birta setur sér stefnu, mælanleg markmið og aðgerðaáætlun til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum út frá starfseminni og jafnframt auka jákvæð áhrif. Á árinu hófst vinna við að fá umhverfisvottun ISO 14001 og er sú vinna á lokametrunum. Sú vinna snýr bæði að rekstri sjóðsins og fjárfestingum hans.
Mikilvægir þættir í starfsemi Birtu með tilliti til umhverfisáhrifa
Umhverfisþættir sem skilgreindir eru mikilvægir í starfseminni hafa verið metnir með tilliti til umhverfisáhrifa og áhættu. Þeir eru vaktaðir og niðurstöður skráðar í vöktunarskjal svo hægt sé að fylgjast með þróun þeirra með tilliti til markmiða sem sjóðurinn hefur sett sér.
Birta lífeyrissjóður beinir viðskiptum sínum að birgjum sem hafa stefnu í umhverfismálum, sé þess kostur, og vekur athygli birgja á stefnu og starfsháttum sjóðsins í umhverfismálum.
Sjóðurinn leggur áherslu á að starfsmenn fylgi í hvívetna stefnu hans og reglum í umhverfismálum.
Raforkunotkun í starfsemi Birtu fellur undir umhverfisþáttinn. Rekstur skrifstofuhúsnæðis sjóðsins krefst lágmarksorku. Fylgst er með orkunotkun frá ári til árs og markmið um orkusparnað og nýtingu orkunnar sett til eins árs í senn.
Stafræn þjónusta við sjóðfélaga hefur aukist mjög í seinni tíð og með því móti dregur mjög úr pappírsnotkun og prentun. Mestu máli skiptir samt að þjónusta sjóðsins verður á þennan hátt einfaldari, skjótari og skilvirkari en áður. Sjóðfélagar geta líka í mörgum tilvikum rekið erindi sín gagnvart sjóðnum með tölvusamskiptum frá heimili eða vinnustað og sparað sér ferðir á skrifstofu Birtu.
Umhverfisþátturinn tekur til notkunar á heitu og köldu vatni á skrifstofu sjóðsins. Heitavatnsnotkunin tengist að miklu leyti upphitun húsnæðis en annars leitast starfsmenn við að takmarka notkun á heitu og köldu vatni.
Umhverfisþátturinn á við um notkun á gæðapappír og kynningarefni á pappírsformi.
Pappírsnotkun í starfsemi Birtu á árinu 2019 var fjórðungi minni en á fyrra ári. Þar verður ekki staðar numið því markmiðið er að pappírsnotkunin á árinu 2020 verði 10% minni en 2019. Starfsmenn eru hvattir til að lesa frekar á skjá en prenta skjöl en prenta þá báðum megin á blöð nema annars sé krafist af einhverjum ástæðum. Ljósritunarpappír er skráður í vöktunarskjal við innkaup og þannig fylgst með notkuninni.
Umhverfisþátturinn varðar notkun allra merkingarskyldra efna í starfsemi sjóðsins. Heildarmagnið er óverulegt og leitast við að nota umhverfisvæn efni til þrifa.
Umhverfisþátturinn varðar annan úrgang frá sjóðnum en spilliefni, til dæmis (heimilis)sorp, pappír, dagblöð, tímarit, plast og skilagjaldsumbúðir og trúnaðargögn. Leitast er við að flokka sorp er fellur til í starfseminni. Fastur úrgangur er vigtaður einu sinni á ári og niðurstöður skráðar í vöktunarskjal.
Sjóðurinn hefur að markmiði að minnka úrgang sem fellur til í starfseminni.
Sjóðurinn leitast við að nota endurunnin hráefni í starfsemi sína eins og við verður komið.
Umhverfisþáttur varðar aðallega rafhlöður, prenthylki og efnaafganga. Slíkum spilliefnum er haldið aðskildum frá öðrum úrgangi og skilað til viðurkennds móttökuaðila.
Eldsneytisnotkun er umhverfisþáttur Birtu og varðar akstur starfsmanna á einkabílum á vegum vinnu og ferðir til og frá vinnu. Undir sama umhverfisþátt fellur losun gróðurhúsalofttegunda vegna flugferða starfsmanna á vegum sjóðsins.
Starfsmenn ferðast lítið á vegum sjóðsins en gerist það eru þeir hvattir til að velja umhverfisvæna ferðamáta. Upplýsingar um akstur og flug eru færðar í reiknilíkan sem skilar niðurstöðum í formi kolefnisfótspors. Nánari upplýsingar má finna í skýringu 20 í ársreikningi sjóðsins.
Umhverfisþátturinn varðar fjárfestingar og lánveitingar á vegum sjóðsins. Sjóðurinn hefur sett sér markmið um verklag við mat á fjárfestingakostum með tilliti til umhverfisáhrifa fjárfestinganna.
Sjóðurinn er meðvitaður um ábyrgð sína um að stuðla að aukinni vitund í umhverfismálum með það að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum í starfsemi sinni.