Tryggingafræðileg staða

Tryggingafræðileg athugun á stöðu Birtu lífeyrissjóðs í lok árs 2019 var unnin af Bjarna Guðmundssyni tryggingastærðfræðingi í samræmi við ákvæði 8. greinar samþykkta sjóðsins. Hún er gerð í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997, ákvæði reglugerðar nr. 391/1998 og leiðbeinandi reglur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um framkvæmd tryggingafræðilegra athugana.

Tryggingafræðileg athugun

Í tryggingafræðilegri athugun felst samanburður á verðmæti eigna sjóðsins og iðgjalda við skuldbindingar til greiðslu lífeyris sem leiðir af samþykktum sjóðsins. Lög um starfsemi lífeyrissjóða og samþykktir sjóðsins setja vikmörk fyrir þann mun sem heimill er milli eignaliða og skuldbindinga. Birta lífeyrissjóður veitir réttindi í samtryggingu og rekur auk þess séreignardeild og tilgreinda séreignardeild. Er hér eingöngu fjallað um skuldbindingar og eignir samtryggingardeildar. Mat á skuldbindingum byggist á upplýsingum um réttindi sjóðfélaga úr réttindabókhaldi sjóðsins. Við mat eignaliða er einnig stuðst við upplýsingar úr ársreikningi og fjárhagsbókhaldi sjóðsins.

Skuldbindingar vegna iðgjalda, sem greidd hafa verið til sjóðsins til loka árs 2019, kallast áfallnar skuldbindingar. Heildarlífeyrisskuldbindingar eru þær skuldbindingar sjóðsins þegar einnig er ætlað fyrir réttindum vegna ógreiddra iðgjalda greiðandi sjóðfélaga um áramót. Ákvæði laga um heimil vikmörk lúta að mun á heildarskuldbindingum og endurmetnum eignum að viðbættu verðmæti iðgjalda.

Helstu reikniforsendur sem notaðar eru við athugunina
  • Raunávöxtun eigna sjóðsins verði 3,5% árlega.
  • Lífslíkur sjóðfélaga og rétthafa: samkvæmt reynslu íslenskra lífeyrissjóða 2014-2018.
  • Örorkulíkur sjóðfélaga: fyrir karla 67% af meðalörorkutíðni karla og fyrir konur 107% meðalörorkutíðni kvenna samkvæmt reynslu íslenskra lífeyrissjóða 2011-2016.

Niðurstaða athugunarinnar

Niðurstaða athugunarinnar er að verðmæti eigna sjóðsins, að meðtöldum iðgjöldum en frádregnum kostnaði vegna rekstrar, reiknast 619.881 milljón króna og skuldbindingar vegna áunninna skuldbindinga ásamt framtíðarskuldbindingum reiknast 631.325 milljónir króna. Mismunur eigna og skuldbindinga reiknast því -11.444 milljónir króna eða -1,8% af skuldbindingum.

Staða sjóðsins er innan þeirra almennu marka sem áskilin eru í lögum nr. 129/1997 um að munur eigna og skuldbindinga fari ekki umfram 10% eða samfellt yfir 5% fimm ár í röð.

Nánari grein er gerð fyrir forsendum, reikniaðferðum og niðurstöðum hér á eftir. Tryggingafræðilegt mat á lífeyrisskuldbindingum ber að skoða sem vænta niðurstöðu úr reiknilíkani þar sem byggt er á forsendum háðum óvissu. Mismunur niðurstöðu reiknilíkansins og raunveruleika getur komið fram vegna tilviljanasveiflna, einkum þegar sá hópur sem reiknað er fyrir er lítill og einnig vegna þeirrar miklu óvissu sem er um forsendur sem notaðar eru. Forsendur reiknilíkansins lúta að vöxtum, dánarlíkum og fleiru áratugi fram í tímann og því nánast óhjákvæmilegt að frávik komi fram frá þeim forsendum sem reiknað er eftir.

Helstu gögn sem stuðst hefur verið við

Réttindabókhald sjóðsins er fært samkvæmt lögum og reglum. Upplýsingar um réttindaöflun og lífeyrisgreiðslur byggjast á því bókhaldi:

  1. Lífeyrisþegar og greiðslur til þeirra í desember 2019. Hér er tilgreind tegund lífeyris, fjárhæð, hvenær greiðslum lýkur eða þær verða endurskoðaðar, ef um er að ræða maka- eða barnalífeyri, og auðkenni maka fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Er unnt að undanskilja greiðslur vegna umsjónarnefndar eftirlauna sem Birta lífeyrissjóður fær endurgreiddar og eiga því ekki að teljast til skuldbindinga sjóðsins.
  2. Réttindaöflun og iðgjaldagreiðslur allra sem greitt hafa eða greitt hefur verið fyrir til sjóðsins ár fyrir ár og auk þess sundurliðun eftir mánuðum fyrir árin 2015-2019.
  3. Einstaklingar sem tilgreindir eru í lið 1 og 2 með upplýsingum um fæðingardag og mánuð og eftir atvikum dánarár og mánuð og auðkenni maka.
  4. Yfirlit yfir skráningu réttinda eftir iðgjalda- og almanaksárum fyrir samtryggingardeild sjóðsins.

Tryggingastærðfræðingur vinnur úr gögnum af ýmsum toga við útreikninga

Gögn sem tryggingastærðfræðingur vinnur með eru ekki á persónugreinanlegu formi

Með því að fella látna úr skrá um áunnin réttindi og þá sjóðfélaga sem farnir eru að taka lífeyri, fást áunnin réttindi annarra en lífeyrisþega. Sérstaklega eru síðan talin réttindi sem lífeyrisþegar, sem ekki eru orðnir 70 ára, hafa áunnið sér eftir að taka lífeyris hófst.

Með athugun á skráningu réttinda eftir skráningar- og iðgjaldatímabilum undanfarin ár má ætla að um 8% af réttindum síðasta almanaksárs hafi ekki verið skráð í lok ársins. Við áætlun um framtíðariðgjöld vegna iðgjaldatímabila 2020 og síðar, sem núverandi sjóðfélagar eiga eftir að greiða til sjóðsins, er miðað við að allir þeir sem öðluðust réttindi á árinu 2019 muni halda áfram að ávinna sér sömu réttindi til framtíðar, að teknu tilliti til 8% álags sbr. hér að framan. Sá hópur sjóðfélaga kallast virkir sjóðfélagar en aðrir þeir, sem eiga réttindi í sjóðnum og ekki eru lífeyrisþegar, kallast óvirkir sjóðfélagar.

Úr ársreikningum sjóðsins fengust upplýsingar um kostnað við rekstur síðastliðin þrjú ár og auk þess um eignastöðu sjóðsins. Úr verðbréfakerfi eru fengnar upplýsingar um greiðslukjör skuldabréfa og gengi eigna með breytilegar tekjur á markaðsverði. Iðgjaldagreiðslur ársins 2019 hafa verið bornar saman við iðgjaldagreiðslur samkvæmt ársreikningi og lífeyrisgreiðslur desember 2019 bornar saman við lífeyrisgreiðslur ársins samkvæmt ársreikningi. Þá hafa upplýsingar um réttindi sjóðfélaga verið bornar saman við samsvarandi upplýsingar frá athugun fyrra árs. Þessar athuganir benda ekki til annars en að byggja megi mat skuldbindinga sjóðsins á þeim gögnum sem fyrir liggja úr réttindakerfi en gögn hafa ekki verið sannreynd með samanburði við frumgögn eða öðrum hætti en þeim sem hér er lýst.

Yfirlit um tryggingafræðilega stöðu samtryggingardeildar
Taflan sýnir niðurstöðu úttektar á heildarskuldbindingu sjóðsins 2019 og til samanburðar árið 2018
Eignir 2019 2018 Breyting milli ára
Hrein eign til greiðslu lífeyris 414.606.722 357.229.217 16,1%
Mismunur á bókfærðu verði og núvirði skuldabréfa -7.665.363 -482.946 1487,2%
Mismunur á bókfærðu verði og matsverði skráðra hlutabréfa -5.669.780 -1.195.674 374,2%
Núvirði framtíðarrekstrarkostnaðar -17.028.649 -16.860.181 1,0%
Núvirði framtíðariðgjalda 235.638.534 225.502.921 4,5%
Eignir samtals 619.881.464 564.193.336 9,9%
Skuldbindingar 2019 2018 Breyting milli ára
Ellilífeyrir 551.714.198 510.454.439 8,1%
Örorkulífeyrir 40.369.257 37.997.935 6,2%
Makalífeyrir 36.183.632 35.120.903 3,0%
Barnalífeyrir 1.667.412 1.535.517 8,5%
Fjölskyldulífeyrir 1.390.474 1.732.483 -24,6%
Skuldbindingar samtals 631.324.973 586.841.278 7,6%
Eignir umfram skuldbindingar -11.443.509 -22.647.942 -97,9%
Í hlutfalli af skuldbindingum í lok árs -1,8% -3,9% -116,7%

Reikniforsendur og aðferðir

Reikniforsendur fyrir tryggingafræðilegar athuganir íslenskra lífeyrissjóða eru tilgreindar í lögum nr. 129/1997 og reglugerð nr. 391/1998 sem fjármálaráðherra setur á grundvelli þeirra laga

Tryggingafræðingi er heimilt að víkja frá þessum staðalforsendum ef talið er að sérstakar aðstæður í viðkomandi sjóði verði þess valdandi að aðrar forsendur eigi betur við. Engu að síður skal reiknað eftir staðalforsendum og sú niðurstaða birt til samanburðar. Með reglugerð nr. 391/1998 er Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga falið að útbúa töflur um lífs- og örorkulíkur til nota við mat á stöðu lífeyrissjóða og jafnframt töflur um hjúskapar- og barneignalíkur.

Við tryggingafræðilega athugun Birtu lífeyrissjóðs 2019 eru notaðar íslenskar dánar- og eftirlifendatöflur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga, byggðar á reynslu lífeyrissjóða árin 2014-2018. Giftingarlíkur og meðalaldur maka eru samkvæmt upplýsingum úr þjóðskrá. Þá er um fjölda barna byggt á íslenskum barneignalíkum. Varðandi örorku er fyrir karla miðað við 67% af meðalörorkutíðni karla og fyrir konur 107% meðalörorkutíðni kvenna samkvæmt reynslu íslenskra lífeyrissjóða 2011-2016. Forsendur um lífs- og örorkulíkur eru breyttar frá tryggingafræðilegri athugun árið 2018.

Lífeyrisréttindi eru verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Gert er ráð fyrir því að vextir verði 3,5% umfram hækkun vísitölunnar.

Árlegur rekstrarkostnaður og fjárfestingargjöld er áætlað sem meðaltal kostnaðar árin 2017-2019, uppfært til verðlags í lok árs 2019 (gildi vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í janúar 2020) og ætlað fyrir sama kostnaði í 50 ár núvirt með sömu vöxtum og lífeyrisskuldbindingar. Lífeyrisaldur er settur 67 ár eða aldur sjóðfélaga sé hann hærri.

Yfirlit um breytingu á áföllnum lífeyrisskuldbindingum samtryggingardeildar

Skuldbindingar samtryggingardeildar eru metnar meðal annars út frá áföllnum lífeyrisskuldbindingum sem sýnir áunnin réttindi sjóðfélaga um áramót. Myndin sýnir áfallna skuldbindingu vegna áunninna réttinda í byrjun árs 2019 og stöðuna í árslok 2019 ásamt sundurgreiningu á þeim þáttum sem urðu á árinu 2019 bæði til lækkunar og hækkunar á áfallinni skuldbindingu.

Breyting á áföllnum lífeyrisskuldbindingum samtryggingardeildar

Ofangreindar forsendur og aðferðir við mat skuldbindinga

Ofangreindar forsendur og aðferðir við mat skuldbindinga eru í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 391/1998 um reikniforsendur við tryggingafræðilegar úttektir og þær reikniforsendur sem Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga var með sömu reglugerð falið að gefa út til nota við tryggingafræðilegar athuganir. Nýtt er heimild til fráviks frá staðalforsendum hvað varðar lífs- og örorkulíkur þar sem nýr reiknigrunnur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga frá árinu 2018 er talinn eiga betur við en staðalforsendur byggðar á lífslíkum þjóðarinnar og eldri athugun á örorku.

Eignir sjóðsins, sem bera fastar tekjur, eru að hluta núvirtar miðað við sömu ávöxtunarforsendu og skuldbindingar, þ.e. 3,5% umfram hækkun vísitölu neysluverðs til verðtryggingar. Óverðtryggðar eignir eru núvirtar miðað við 3,5% ávöxtun umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands, sem var 2,5% þegar athugunin var gerð.

Útreikningar á núvirði eigna með fastar tekjur eru framkvæmdir af starfsmönnum sjóðsins. Þá eru eignir með breytilegar tekjur, skráðar á skipulegum markaði, metnar á því sem lægra er, markaðsverði í árslok eða meðaltali markaðsverðs síðustu þriggja mánaða ársins. Þau frávik, sem með þessu koma fram frá bókfærðu verði eignanna í ársreikningi, eru skráð sem endurmat eigna.

Niðurstöður

Tryggingafræðileg staða sjóðsins er -1,81%

Tryggingafræðileg úttekt miðað við árslok 2019 sýnir að heildarskuldbindingar sjóðsins voru 1,81% umfram heildareignir en voru 3,86% umfram heildareignir í árslok 2018. Við úttektina er miðað við að ávöxtun eigna sjóðsins á næstu áratugum verði 3,5% umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Niðurstöður tryggingafræðilegri stöðu Birtu lífeyrissjóðs, miðað við árslok 2019, má sjá í yfirliti um tryggingafræðilegrar stöðu samtryggingar í ársreikningi. Í skýringu 16 er yfirlit um breytingu á tryggingafræðilegri stöðu samtryggingardeildar.

Helstu þættir sem hafa áhrif á stöðu sjóðsins eru ávöxtun, lýðfræðilegir þættir og rekstrarkostnaður. Lífeyrissjóðurinn framkvæmir reglulega álagspróf en markmiðið með því er að meta hvort tryggingafræðileg staða sjóðsins verði undir -10% miðað við mismunandi fyrirframgreinda álagsþætti. Niðurstöður álagsprófs eru í skýringu 19.3. í ársreikningi.