Samfélagið

Birta lífeyrissjóður vill vera til fyrirmyndar á sviði samfélagsábyrgðar

Ábyrgar fjárfestingar og umhverfismál skipta sjóðinn miklu máli

Birta á aðild að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar, (UN Principles for Responsible Investment). Þar með skuldbindur lífeyrissjóðurinn sig til þess að líta til þátta er varða umhverfi, samfélag og stjórnarhætti í fjárfestingum sínum.

Ársskýrsla Birtu er nú í fyrsta sinn sett upp og útfærð í samræmi við GRI-staðla, Global Reporting Initiative Standards. Kjarni máls er að greina frá hefðbundnum rekstri lífeyrissjóðsins annars vegar en að fjalla hins vegar um áhrif starfsemi hans á efnahag , umhverfi og samfélagið og hvaða mælanleg markmið hafa verið sett í því sambandi.

Samfélagsábyrgð tekur til dæmis til viðskiptasiðferðis, umhverfismála í víðum skilningi, vinnuverndar og mannréttinda. Umfjöllun og upplýsingar þar að lútandi eiga að vera aðgengilegar sjóðfélögum og öllum almenningi eftir atvikum.

Ábyrgð gagnvart samfélaginu er þáttur sem stofnanafjárfestar verða að taka alvarlega, þar með taldir lífeyrissjóðir sem og eigendur og stjórnendur fyrirtækja.

Umhverfis- og loftlagsmál eiga að vera ofarlega í mati á fjárfestingum hérlendis og erlendis og eru það í reynd. Þegar nú blasir við að lífeyrissjóðir fjárfesta og ávaxta fjármuni erlendis í vaxandi mæli verða þeir jafnframt að afla sér og hafa aðgang að þekkingu til að geta sett fjárfestingarkosti í samhengi við ábyrga stefnu og gjörðir í umhverfis- og loftlagsmálum.

Þetta eru í hnotskurn sjónarmið Birtu lífeyrissjóðs. Tímarnir breytast og viðhorf til umhverfismála mótast ört með tilheyrandi áhrifum samfélagsmiðla.