Ávarp stjórnarformanns

Ingibjörg Ólafsdóttir

Árið 2019 var hagfellt Birtu lífeyrissjóði og heilt yfir sýna árangursmælikvarðar okkar að flest sem við teljum máli skipta hefur gengið sjóðnum okkar í haginn.

Við gátum því miður ekki leyft okkur að fagna lengi því heimsfaraldurinn, COVID- 19 hefur svo sannarlega haft áhrif á okkur eins og heimsbyggðina. Það er og var illmögulegt að sjá fyrir þær efnahagslegu afleiðingar sem nú blasa við okkur. Sjóðurinn stendur engu að síður styrkum fótum og tryggingafræðileg staða hans um síðustu áramót sýnir að það er borð fyrir báru. Sjóðurinn var svo gott sem í jafnvægi hvað eignir og skuldbindingar varða og ávöxtun fyrstu mánuði þessa árs gefur ekki tilefni til að óttast skerðingar eða verulegar breytingar á lífeyrisgreiðslum.

Við höfum líka verið minnt á þá staðreynd að ávöxtun eigna lífeyrissjóðs á einu ári segir fátt um ávöxtunina á því næsta, hvað þá því þarnæsta. Afkoma á mun lengra tímabili skiptir lífeyrissjóð meira máli, enda langtímafjárfestir sem þekkir af reynslu að ávöxtun getur sveiflast umtalsvert á skömmum tíma, eðli máls samkvæmt. Þá er um að gera að halda ró sinni hvort sem afkomusúlurnar stíga eða hníga umtalsvert á skömmum tíma. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar Birtu og forvera hans s.l. 10 ár er 4,74% og fyrstu mánuðir þessa árs sýna að eignum er vel dreift og áhættan er hófleg. Við erum meðvituð um framtíðar áskoranir, til að mynda að lágt vaxtastig hefur áhrif á eignaverð. Að lengri lífaldur felur í sér hærri lífeyrisskuldbindingar sem bregðast þarf við. Þess vegna hafa samningsaðilar samið um hærra iðgjald og ég hef lært það á þeim átta árum sem ég hef starfað í stjórn Birtu og forvera hans að alltaf er hugað að hagsmunum sjóðfélaga eins og vera ber.

Birta er metnaðarfullur og framfarasinnaður lífeyrissjóður og sýndi það í verki á liðnu ári. Reyndar ættum við að byrja á því að staldra við hvernig staðið er hér að birtingu ársreiknings og ársskýrslu sjóðsins fyrir liðið ár. Nú er í fyrsta sinn fylgt staðli samkvæmt meginreglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN Principles for Responsible Investment) og ófjárhagslega upplýsingamiðlun þar sem við á. Framsetning efnisins er önnur en við höfum átt að venjast og við sögu koma ýmsir samfélagslegir þættir í meira máli en áður. Þar eru umhverfismál, samfélagið og stjórnhættir efst á blaði.

Ég nefni alveg sérstaklega það sem snýr að þeirri hlið samfélagsábyrgðar sem varðar umhverfi og loftlagsmál. Sumum þótti kyndugt þegar spurðist út að lífeyrissjóður hefði helgað sér land í Haukadal til að planta trjáplöntum og tjóðra þannig skaðleg efni í andrúmsloftinu í skógi og jarðvegi. Sjóðurinn horfir ekki síður til lærdómsgildis slíkra aðgerða. Að láta sig umhverfið varða og fræðast um hvað hægt er að gera ef viljinn og áhuginn er til staðar. Þar fer saman sú langtíma hugsun okkar að stuðla að sjálfbæru samfélagi til lengri tíma svo hægt verði að borga út lífeyri eftir 40 ár á grunni hagkerfis sem lífeyrissjóðurinn tekur þátt í með virkum hætti. Birta lífeyrissjóður og starfsfólk hans ætla ekki að vera hlutlausir áhorfendur á hliðarlínunni þegar kallað er eftir alheimsátaki gegn loftslagsbreytingum sem orðnar eru nútíðarvá og verða enn meiri framtíðarvá ef ekkert verður að gert. Nú er staðan sú að Birtuskógurinn gerir lífeyrissjóðinn kolefnishlutlausan næstu 35 árin og meira til. Það er að segja, skógurinn okkar mun binda meira af gróðurhúsalofttegundum en svarar til þess sem starfsemi sjóðsins og starfsfólks hans losar. Það sem meira er, viðhorf okkar í Birtu til umhverfismála breyttist og þekkingin jókst á því hvað við sjálf gætum gert, ættum að gera og þá hvernig í þágu umhverfisins.

Að sýna ábyrgð í starfi felur í sér áskorun um að sýna hana í verki og miðla því til sjóðfélaga svo það skiljist. Þess vegna birtum við ársskýrslu Birtu samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum. Við hefðbundnar upplýsingar sem margir hafa vanist að lesa úr ársreikningi bætast upplýsingar sem varða umhverfið, samfélagið og stjórnarhætti okkar, skammstafað UFS. Þetta er samfélagsábyrgð í reynd og rennir stoðum undir þá fullyrðingu að Birta er metnaðarfullur og framfarasinnaður sjóður.

Viðskiptalíkan Birtu miðar að því að skapa verðmæti fyrir sjóðfélaga og í ársskýrslunni er því lýst í stuttum orðum. Markmið okkar og hlutverk eru skýr og við birtum ykkur árangursmælikvarða sem tengja má beint við viðskiptalíkanið. Þannig gefst ykkur kostur á að meta það með stjórn og starfsfólki á hverjum tíma hvernig okkur gengur að skapa verðmæti. Við tökum á móti iðgjöldum, ávöxtum þau yfir starfsævi sjóðfélaga og borgum að endingu út lífeyri þegar starfsævinni er lokið. Hlutverk okkar er skýrt og til þess að sinna því vel þurfum við að hafa skýr markmið.

Í því sambandi langar mig að benda á breytingar á þjónustu Birtu þar sem tölvusamskipti einfalda lífið fyrir sjóðfélaga og starfsfólk og draga um leið úr rekstrarkostnaði sjóðsins. Tæknilegar framfarir teljast til viðskiptaþróunar og áþreifanlegast er þetta í lánastarfsemi sjóðsins þar sem hægt er nú á ótrúlega skömmum tíma að sinna og afgreiða sjóðfélagalán rafrænt. Sama ferli gat áður tekið langan tíma með tilheyrandi pappírsvafstri og akstri umsækjenda fram og aftur um bæinn.

Stafræna fyrirkomulagið mælist mjög vel fyrir og hefur gert lánaafgreiðslu sjóðsins mun skjótari og skilvirkari en áður þekktist. Það kemur sér vel því sjóðfélagalánum Birtu hefur fjölgað mjög, enda vextir á þeim með því lægsta sem um getur á sambærilegum lánum í samfélaginu.

Þúsundir sjóðfélaga njóta góðs af hagstæðum lánskjörum sjóðsins en hyggilegt þótti samt að stíga léttilega á bremsuna undir lok árs þegar stjórn samþykkti að þrengja ögn skilyrði til lána. Markmiðið var að halda sjóðfélagalánum innan tiltekinna marka í eignasafni Birtu. Jafnframt ber að nefna að ákveðið var að auðvelda sjóðfélögum fyrstu kaup fasteigna með því að bjóða þeim viðbótarlán og rýmri veðheimildir.

Ágætu sjóðfélagar

„Tíminn líður áfram og hann teymir mig á eftir sér“ segir meistari Megas og hann líður hratt. Nú eru átta ár liðin frá því ég var kjörin fyrst til setu í stjórn Stafa lífeyrissjóðs. Frá sameiningu Stafa og Sameinaða lífeyrissjóðsins hef ég setið í stjórn Birtu lífeyrissjóðs og sl. tvö ár sem varaformaður og formaður. Nú er mál að linni, ég hætti í stjórn á þessum aðalfundi. Mig langar því að nota síðasta tækifærið sem formaður Birtu til að horfa um öxl yfir átta ára tímabil sem hefur verið bæði áhugavert, lærdómsríkt og gefandi.

Ég vissi lítið um lífeyrissjóði og lífeyrissjóðakerfið þegar ég mætti á fyrsta stjórnarfund í Stöfum og mér liggur við að segja að ég sé enn blaut á bak við eyrun átta árum síðar. Það tók langan tíma að komast almennilega inn í málin og svo er stöðugt verið að breyta ýmsu í regluverki lífeyrissjóða sem þarf auðvitað að tileinka sér strax. Stjórnarseta í lífeyrissjóði er stærra og ábyrgðarmeira verkefni en ég gerði mér grein fyrir.

Sameining Stafa og Sameinaða lífeyrissjóðsins stendur upp úr í minningunni. Hún var hvorki áreynslulaus né átakalaus en gekk ótrúlega vel fyrir sig og skilaði því sem til var ætlast; hagræðingu, markvissari starfsemi, betri þjónustu og minni rekstarkostnaði en hefði fylgt tveimur aðskildum sjóðum. Hin formlega sameining var eitt, hin raunverulega sameining annað. Þetta er að baki og Birta er í jafnvægi, öflugur lífeyrissjóður í fremstu röð.

Ég segi hér og undirstrika að starfsfólk Birtu er alveg framúrskarandi, með framkvæmdastjóra í fararbroddi sem hefur sjaldgæft lag á að hafa þannig áhrif á umhverfi sitt að öldur ná aldrei að rísa almennilega ef hvessir af einhverjum ástæðum og það jafnvel af skiljanlegum ástæðum.

Oft hef ég dáðst að því hve yfirgripsmikil og vönduð vinna sérfræðinga sjóðsins liggur að baki því sem fyrir okkur í stjórn Birtu er lagt af öllu mögulegu tilefni. Upplýsingarnar eru undantekningalaust fallnar til að stjórn geti tekið ákvarðanir á vel undirbyggðum og traustum forsendum. Utan stjórnarfunda hef ég oft leitað til starfsmanna og alltaf fengið strax skýr svör við spurningum og aldrei mætt öðru en liðlegheitum og þægilegu viðmóti sama hversu heimskulegt erindið var.

Og alltaf eru starfsmenn Birtu að hugsa næstu leiki fram í tímann. Þeir hætta bara aldrei að hugsa um hvað hægt sé að gera næst, gera góða þjónustu enn betri og hika ekki við að hugsa þá út fyrir boxið, eins og ég hef áður nefnt dæmi um.

Slíkur starfsmannaauður er ekki sjálfgefinn og ánægjulegt að sjá í ársskýrslu að nýjasta viðhorfskönnun Gallup sýnir að skrifstofubragur Birtu er í góðu lagi. Þetta vil ég nefna og segja að þið sjóðfélagar getið treyst því að við erum í mjög góðum málum með Birtu lífeyrissjóð!

Ég þakka ykkur sjóðfélögum fyrir virka þátttöku í lífeyrissjóðnum ykkar, það er mikilvægt og nauðsynlegt. Starfsfólki Birtu þakka ég kærlega fyrir sérlega góð og lærdómsrík samskipti þessi átta ár, þið eruð einstök. Samstjórnarmönnum mínum sömuleiðis þakka ég fyrir heiðarlegt og hreinskilið samstarf. Ég mun sakna þess að hitta ykkur ekki reglulega.

Framtíð Birtu er björt, ég óska ykkur öllum alls hins besta.