Mannauður

Markmið Birtu er að ráða, efla og halda hæfu og traustu starfsfólki sem býr yfir yfirburða þekkingu eða reynslu og vinnur saman að því að leita ávallt bestu lausna fyrir sjóðfélaga sjóðsins.

Hæfni og ánægja starfsmanna er forsenda árangurs

Ánægja og vellíðan starfsfólks Birtu er undirstaða þeirrar góðu þjónustu sem sjóðurinn vill að sjóðfélagar og aðrir upplifi í samskiptum sínum við sjóðinn.

Sjóðurinn býr yfir einstökum mannauði, hæfu og reynslumiklu fólki sem leggur sig allt fram í sínum störfum og er samvinna mikilvæg innan og á milli allra deilda sjóðsins. Sjóðurinn leggur áherslu á gott og fjölskylduvænt starfsumhverfi, fræðslu, þjálfun og jákvæðan starfsanda.

Upplýsingagjöf til starfsmanna skiptir miklu máli og eru starfsmannafundir haldnir mjög reglulega til upplýsinga og samtals. Ánægjukannanir eru framkvæmdar reglulega meðal starfsmanna og niðurstöður þeirra rýndar og ræddar. Leitað er leiða til úrbóta þar sem upp á vantar.

Starfsmannafélag Birtu stuðlar að fjölbreyttu og öflugu félagslífi og skipuleggur viðburði fyrir starfsfólk, sem dæmi má nefna fjölskyldudag á sumrin, jólahlaðborð, óvissuferðir, spilakvöld og keilukvöld. Öllum starfsmönnum býðst aðild að starfsmannafélagi Birtu.

Lista yfir starfsfólk Birtu má finna á vef sjóðsins.

Starfsfólk Birtu lífeyrissjóðs er fjölbreyttur hópur

Starfsemi Birtu skiptist niður á fimm svið: rekstur, lífeyrissvið, lánasvið, eignastýring og þjónusta og innheimta

27
FJÖLDI STARFSFÓLKS MANNS
49
MEÐALALDUR STARFSFÓLKS ÁR
10,5
MEÐAL STARFSALDUR ÁR

Nýráðningar starfsmanna og starfsmannavelta

Birta leggur áherslu á að ráða til starfa hæfasta starfsfólk sem völ er á hverju sinni og allar ráðningar byggjast á hæfni, menntun og starfsreynslu. Starfsmannavelta á árinu 2019 var 7,1%. Um er að ræða valkvæða starfsmannaveltu, en tveir starfsmenn létu af störfum á árinu og nýráðningar voru tvær.

Jafnrétti er okkur mikilvægt

Birta var fyrst lífeyrissjóða til að fá jafnlaunavottun

Birta lífeyrissjóður leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna og hlaut jafnlaunavottun í júní 2019 á grundvelli jafnlaunastaðalsins ÍST 85. Staðallinn er stjórnunarstaðall fyrir jafnlaunakerfi sem tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunun vegna kyns. Sjóðurinn tók í notkun líkan sem greinir áhrif hverrar einstakrar launaákvörðunar á kynbundinn launamun. Jafnlaunavottunin staðfestir að þau sjónarmið sem Birta leggur til grundvallar við ákvörðun launa og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar á grundvelli líkansins uppfylla ákvæði laga nr. 56/2017 um jafnlaunavottun og að starfsfólki sjóðsins sé ekki mismunað á grundvelli kyns þess.

Ekki hefur komið upp atvik um mismunun á grundvelli kynjabundins jafnréttis hjá sjóðnum. Leitað er eftir óútskýrðum kynbundnum launamun frá mánuði til mánaðar. Stjórnendur sjóðsins vinna eftir fyrirframákveðnu verklagi jafnlaunavottunar.

Fæðingarorlof

Alls fóru tveir starfsmenn í fæðingarorlof á árinu 2019, um er að ræða tvær konur. Þær snéru báðar aftur til starfa hjá sjóðnum á árinu 2020 að fæðingarorlofi loknu.

„Með fjögur börn undir átta ára aldri er alltaf áskorun að samræma vinnu og einkalíf en það hefur gengið ótrúlega vel. Starfsfólki er gert kleift að samræma vinnu og einkalíf og gefinn kostur á að útvíkka og viðhalda þekkingu sinni í starfi. Birta fær mín meðmæli, bæði sem vinnustaður og sem minn lífeyrissjóður“.
Íris Anna Skúladóttir
Lánastjóri

Fræðsla og starfsþróun

Vellíðan á vinnustað er í hávegum höfð og hlúð vel að starfsmönnum

Fræðsla, endurmenntun og reglubundin þjálfun er hluti af daglegum störfum starfsmanna. Skipulögð þjálfun og fræðsla fer fram hjá sjóðnum allt árið. Sjóðurinn stendur fyrir reglulegum fyrirlestrum með það að markmiði að byggja upp þekkingu og færni starfsmanna í samræmi við stefnu og gildi sjóðsins. Fræðslustarf sjóðsins skiptist annars vegar í sérhæfða endurmenntun og hins vegar í almenna fræðslu.

Fræðslustarf nam 1.515 klukkustundum árið 2019 og jafngildir það því að allir starfsmenn sjóðsins hafi að meðaltali hlotið 54,10 klukkustundir í þjálfun á árinu. Um 61,1 % af fræðslustundum ársins eru vegna endurmenntunar, starfs- og síþjálfunar sem starfsmenn þurfa á að halda til að viðhalda réttindum og hæfni til að sinna störfum sínum. Um er að ræða starfsmenn sem eru að viðhalda réttindum í löggiltri endurskoðun, sem viðurkenndir bókarar og styrkja þekkingargrunn til eigna- og áhættustýringar. Starfsmenn annarra sviða og deilda sækja einnig námskeið og fræðslufundi.

Árlegt starfsmannasamtal er hluti af starfsþróun hvers starfsmanns. Samtalið gefur starfsmanni og stjórnanda færi á að ræða verkefni, líðan, vinnuaðstöðu, það sem betur má fara og aðgerðir til úrbóta. Starfsmannasamtalið er jafnframt tæki starfsmanns til að hafa áhrif á eigið starf, hæfni, starfsþróun og fræðslu.

Heilsa og starfsumhverfi

Starfsfólki er boðið upp á árlega heilsufarsskoðun ásamt árlegri inflúensubólusetningu. Leiðbeiningar iðjuþjálfa er varðar líkamsbeitingu við vinnu eru í boði fyrir starfsfólk ásamt fyrirlestrum um heilsutengd málefni. Þátttaka í íþróttaviðburðum svo sem Hjólað í vinnuna er einnig í boði.
Lögð er áhersla á að efla vitund starfsmanna um mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi og sýna með þeim hætti fram á að sjóðnum er annt um heilsu og öryggi starfsmanna sinna. Markmið sjóðsins er að stuðla að aukinni andlegri og líkamlegri vellíðan starfsfólks, að búa starfsmönnum gott vinnuumhverfi og að mæta andlegum, félagslegum og líkamlegum þörfum starfsmanna á vinnustaðnum. Boðið er upp á fyrirlestra innan sjóðsins á sviði líkamlegs og andlegs heilbrigðis. Sjóðurinn styrkir starfsmenn sína fjárhagslega til að stunda sína líkamsrækt. Líkamsræktaraðstaða er fyrir hendi í Sundaboganum, sem er starfsstöð sjóðsins.

Iðjuþjálfi fer reglulega yfir starfsstöðvar starfsmanna og leiðbeinir þeim hvað varðar stillingar á stólum, borðum og öðrum þeim búnaði sem starfsmenn þurfa á að halda við störf sín. Niðurstöður sérfræðingsins eru svo notaðar til að bæta úr þar sem þörf er á. Ekki er um að ræða meiðsli og fjarveru starfsfólks frá vinnu vegna atvinnusjúkdóma og ekki er um að ræða vinnutengd dauðsföll.

Sjóðnum er umhugað um að vinnuaðstaða starfsmanna sé fullnægjandi svo ekki skapist hætta á því að þeir þrói með sér starfstengda sjúkdóma. Starfsmenn Birtu, sem allir starfa á skrifstofu sjóðsins, eiga þess kost að geta valið um hvort þeir sitja eða standa við störf sín, sem er liður í því að stuðla að heilbrigði starfsmanna og forðast einhæfni í stöðum og hreyfingum. Einnig eru starfsmenn upplýstir um stöðu og beitingu líkamans við vinnu til að lágmarka líkur á því að þeir þrói með sér starfstengda sjúkdóma. Hugað er að andlegri líðan starfsfólks með sveigjanleika, fræðslu og óheftu aðgengi að stjórnendum ef starfsmaður kýs að bera málefni sem upp koma undir þá.

Lágmarks uppsagnarfrestur hjá sjóðnum eru kjarasamningsbundnir þrír mánuðir, hluti starfsmanna hefur áunnið sér lengri uppsagnarfrest á grundvelli kjarasamningsbundinna réttinda.

Samkvæmt 9. gr. samskipta- og siðareglna ber starfsmanni eða öðrum sem verða varir við brot á reglum að koma á framfæri brotum á lögum, reglum og innri viðmiðum til framkvæmdastjóra sjóðsins, regluvarðar eða eftir atvikum til formanns endurskoðunarnefndar. Brot á reglunum geta eftir atvikum leitt til áminningar eða uppsagnar.

Ég er svo heppinn að geta hjólað í vinnuna en það er mjög góð búningsaðstaða í húsinu sem gerir mér það mögulegt. Ég hjóla flesta daga í mánuði, hleyp stundum líka, en er reyndar skipað í hjólafrí heima þegar leiðinlegar og aggresífar veðurviðvaranir eru í gildi. Ég hreyfi mig mjög mikið og stunda margskonar líkamsrækt og það eru forréttindi að geta blandað svona saman líkamsrækt og að fara í og úr vinnu.
Sigurbjörn Einarsson
Lánasvið